ÞAKKLÆTI

Að vera sannarlega þakklátur er góð leið til að líða vel og skapa sér betri tilveru. Þegar manneskja er sannarlega þakklát er ekkert rúm fyrir neikvæðar tilfinningar. Þakklæti er yndisleg tilfinning og hollt hverri manneskju að iðka það og gera að daglegri iðju í sínu lífi. Þegar við einblínum á allt það sem við erum þakklát fyrir erum við að horfa á allar þær allsnæktir sem í kringum okkur eru. En þegar við hugsum um allt sem okkur langar í eða vantar erum við að upplifa tilfinningu skorts.

Það segir einhversstaðar að allt sem við setjum athygli okkar á vaxi. Eins er það með þakklætið að þegar við þökkum fyrir eitthvað þá vex það. Allavega eykst sú tilfinning að við höfum nóg og það sé séð fyrir því að svo haldi áfram. => meiri vellíðan og öryggiskennd og gleði.

Mér fannst það virkilega góð ummæli hjá Páli Óskari á föstudagskvöldið þar sem hann deildi því með okkur hinum að hann notar þakklætið daglega. Hann byrjar á því á morgnanna þegar hann vaknar að hugsa um allt það sem hann er þakklátur fyrir. Á kvöldin þakkar hann fyrir það sem hefur orðið á vegi hans þann daginn. Hann sagði að það væri líka mikilvægt að þakka fyrir erfiðleikana því við þurfum þá til að vaxa og öðlast dýpri reynslu. 

Það er óteljandi margt sem hægt er að vera þakklátur fyrir. Hugsa að það sé auðveldara að sjá það núna þegar Ísland er nánast komið á hvolf og margt sem við töldum öruggt er það ekki lengur. Þá verða sjálfsögðu hlutirnir ekki eins sjálfsagðir lengur. Það er ekki endilega slæmt því það kennir okkur meira um þakklætið.  Vera þakklát fyrir að hafa hvort annað, bændurna á Íslandi, hafa húsaskjól, alla þessa þjónustu til að auðvelda okkur lífið o.s.frv. Það er hægt að halda endalaust áfram. Best er einmitt að halda áfram að telja upp allt sem þú ert þakklátur fyrir þangað til þú finnur þessa yndislegu tilfinningu þakklætis gegntaka þig og fylla þig af friði, hamingju og sátt.

 

Mæli með þessu og ætla að taka Pál Óskar mér til fyrirmyndar

og muna eftir þakklætinu kvölds og morgna.


Kreppan gerð að rúsínu!

Eftir langar umræður milli mín og hjartkærrar vinkonu að norðan um kreppuna þá kom þessi rúsína í lok samtalsins:

 

"Það er nú eiginlega enginn maður með mönnum

nema að hafa upplifað kreppu allavega einu sinni á ævinni"

 

Ætli okkur sé ekki öllum hollt að læra að meðalhófið er vísasti vegurinn. Verum þakklát fyrir það sem við höfum og setjum rétta forgangsröðun á hlutina. Með því að efla samhug milli fólks, standa saman og styrkja tengslin við ástvini verður auðveldara að komast í gegn um erfiðleikana og hafa vonina að leiðarljósi.

 


Páll Óskar, ég og gamlir gemsar!

Páll Óskar er bara yndislegur og frábær skilaboð sem hann sendir okkur og komandi kynslóð. Ég get nú ekki neitað því að ég varð pínu stolt innra með mér þegar Páll Óskar var að dásama gamla gsm símann sinn. Síminn hans er 12 ára gamall og alveg eins og minn ... gamall Nokia 5031 ef ég man rétt Shocking 

Ég hef haft það sem mottó að kaupa mér aldrei nýjan gsm enda aldrei gert það.  Ég hef verið svo lánsöm að vera gefnir gamlir farsímar, sem öðrum hefur þótt tími til kominn að skipta út fyrir nýja. Þeir hafa dugað mér vel þó einn hafi endað lífdaga sína með því að drukkna í appelsínusafa (Það var Simens farsími). Motorola farsíminn (leit út eins og fjarskiptastöð miðað við farsímana í dag) var orðinn ansi lúinn og farin að bila. Nokia símann hef ég átt lengst eða í 5 ár. Hef einu sinni keypt nýja rafhlöðu í hann.

Ég hef haft svoldið gaman af því að fylgjast með viðbrögðum fólks þegar það sér þennan gamla síma. Mörgum finnst þetta vera ferlega lummó og hallærislegt. Dætur einnar vinkonu minnar höfðu á orði hvað síminn minn væri klunnalegur og gamall. Mér fannst oft að fólki þætti ég nokkuð sérlunda varðandi þetta gsm mottó mitt. En þá birtist Páll Óskar og er bara jafnsérlunda og ég.

Ætli ég þyki þá ekki nokkuð KÚL í dag?  Tounge

 

Það er víst ábyggilegt að okkur veitir ekki af að endurvekja gamlar dyggðir eins og sparnað og nýtni. Ekki er nú verra ef það kemst í tísku!


Styrkjandi og sefandi ...

Eftirfarandi þula eða hugleiðsla hefur oft auðveldað mér að vera í miðjunni minni og í núinu. Sérstaklega þegar reynir á sjálfsstyrkinn eins og á þessum umbyltingartímum. Langar að deila henni með fleirum með von um að einhverjir finni styrk í því.

Þó að útlitið sé svart um þessar mundir hef ég bjargfasta trú á því að þessar umbreytingar eigi eftir að verða til góðs þegar til lengri tíma er litið.

Saga mannkyns og náttúrunnar sýnir að með ákveðnu millibili hafa alltaf  komið tímabil uppstokkunar og endurnýjunar. Þetta á eftir að líða hjá líka og allir verða reynslunni ríkari og vonandi skynsamari, hjálpsamari og nægjusamri.

 

 

 

Ég elska sjálfa mig

og þess vegna lifi ég algörlega fyrir líðandi stund

og nýt hvers góðs andartaks

í vissu þess að framtíð mín er björt, gleðirík og örugg.

Því að ég er barn alheimsins 

og alheimurinn ber ástríka umhyggju fyrir mér

nú og um alla framtíð.

 

Í veröld minni er allt af hinu góða.

 


Tangó á Kaffi Tár

Við hjónin ákváðum að láta loksins verða af því að prufa tangó. Fréttum að það væri kennsla fyrir byrjendur frá kl. 20,00 til 21,00 á Kaffi Tár á laugarveginum (móti Sólon) á miðvikudagskvöldum. Síðan er dansað frjálst frá 21 - 23.

 Tangó dans

Það var rosalega gaman að prufa þetta. Þetta er á við bestu hjónameðferð!  Mikil ögrun fyrir mig því karlmaðurinn á algjörlega að stjórna og konan þarf að einbeita sér og finna hreyfingar hans til að vita hvaða skref á að taka næst. Þetta er ekki eins og í þessum hefðbundu dönsum þar sem þú veist hvert næsta skref á að vera. Þetta er meira flæði og tilfinning. Alveg brilljant.

Ég átti erfitt með þetta fyrst en skildi þetta þegar konan átti að prufa að dansa með lokuð augu - þá kom tilfinningin!

 

Mæli hiklaust með þessu. Við ætlum allavega aftur næsta miðvikudagsköld.


Yndislegi Mosfellsbær

Við hjónin erum alsæl með nýja heimilið og Mosfellsbæ. Það er yndislegt umhverfi hér og rólegt og allt í þægilegum takti. Fólkið elskulegt og hlýlegt. Áherslurnar hér eru okkur að skapi. Sem dæmi eru hér fjöldinn allur af göngu-, hjóla- og reiðleiðum, mikill gróður og fjöldi tráa. Mosfellsbæingar eru metnaðarfullir í garðumhirðu því hér er hver garðurinn öðrum flottari!

Mér finnst líka frábært að þetta er eina bæjarfélagið sem ég veit um sem hefur reiðleiðir innan bæjarins fram hjá leikvöllum og nálægt göngustígum.  Sniðugt að hafa möguleika á að allir geti verið saman í sátt og samlyndi. Akureyringar ættu að taka Mosfellsbæ til fyrirmyndar og taka upp þetta reiðleiðafyrirkomulag í stað þess að fækka reiðleiðum í hvert sinn sem nýtt hverfi skýtur upp kollinum eða önnur starfsemi þrengir að hestamönnum.

Fagmennskan á Reykjalundi er alveg til fyrirmyndar og loksins er ég að vinna á deild þar sem hjúkrunarfræðingarnir eru frumkvöðlar allir sem einn og alltaf að bæta þjónustuna enn frekar. Hér er engin stöðnun og mikill metnaður við lýði. Ég á eftir að læra heilmikið af þeim stöllum mínum sem eru að vinna vinnuna eins og mig hefur alltaf dreymt um að starfa .... og bingó, loksins komin í hópinn!  Wizard


Yndislegt fólk í kring um mig

Það er sko í nógu að snúast þessa dagana. Búin að skila rannsóknaráætluninni sem tók örugglega þrefalt lengri tíma en hefði mátt áætla vegna tregðu heilasellanna í öllu stressinu.

Við bættist að flutningurinn fyrir Jónas með hestaflutningabílnum seinkaði fram yfir helgi. Nú voru góð ráð dýr því búið var að gera ráð fyrir klárnum í göngur í Blöndudal eða að Hveravöllum á sunnudegi. Ég bý hvorki svo vel að eiga hestakerru né bíl með dráttarkrók. Notaði mest allan föstudaginn í að hringja og athuga hvort einhver gæti ferjað Jónas vestur en engin var ferðin. Það kostar litlar 27.000 kr. að leiga jeppa með krók fyrir einn dag svo það var ekki í myndinni.

Nú varð að upphugsa hver gæti hugsanlega séð af bíl og kerru! Það varð úr að ég áræddi að hringja í fyrrverandi vinnuveitanda sem hafði einhverntímann boðið mér jeppann sinn ef ég þyrfti.  Hann er einmitt sú týpa sem auðvelt er að spyrja um slíkt því hann er ekki hræddur við að segja bara nei ef svo ber undir. Alveg yndisleg manneskja og frábær yfirmaður. Hann lánaði jeppann eins og ekkert væri og hestakerruna fékk ég frá eiganda hesthússins sem Jónas var í í vetur. Allt að ganga upp.

Mjög kær vinkona mín sem var á næturvöktum um helgina eins og ég, bauðst samt til að koma með mér. Við keyrðum með hestinn vestur og gátum blaðrað saman alla leiðina og haft bara gaman af. Jeppin (Toyota Landcruser) og kerran virkuðu vel saman og þetta var ekkert mál.

Náðum svo rétt að renna til baka á Akureyri til að komast í vinnu kl. 23.00 eftir þvott á bíl og kerru.

Ég er afskaplega þakklát fyrir allt það góða fólk sem í kringum mig er og sérstaklega fyrir dygga og trúa vini mína sem hafa staðið þétt við bakið á mér. Veit að ég á eftir að sakna þeirra sárt þegar ég verð flutt suður.

Frétti í dag að Jónas stæði sig vel í göngunum og það væri almenn ánægja með hann. Hann er stór og öflugur klár, 1.53 cm á hæð á stöng!  Hann fær að vera í sveitasælunni í vetur og kannski líka næsta sumar.

Skrifa næst þegar ég verð kominn suður í Mosfellsbæinn.


Bloggfrí !!

Vegna flutninga, verkefnavinnu og ýmislegs fleira vildi ég láta vita að ég verð lítið við á blogginu. Mun þó stelast til að kíkja af og til.

 

Hafið þaðöll rosalega gott það sem eftir er sumars  Cool


Skipulaginu ábótavant á Reycup mótinu

"Skipulagið á þessu móti var bara hrunið ... þeir þola ekki allt þetta magn af fólki" sagði 13 ára sonur minn sem tók þátt í mótinu með liði sínu KA 2.

Ég verð að taka undir hans orð því hans lið fékk að kenna á skipulaginu sem setti blett á annars gott mót. 78 lið voru að keppa og þurftu sum liðin að keppa á völlum á ýmsum stöðum í Reykjavík eins Fram vellinum og Gróttu vellinum. Þetta var fjögurra daga mót og voru liðin að spila einn til tvo leiki á dag. Okkar lið voru óánægð með tímasetningu leikjanna því fyrsta daginn byrjaði fyrsti leikur kl. 9 (eftir ferðalag að norðan kvöldið áður) og næstu 3 daga byrjuðu leikirnir kl. 8. Þetta þýddi að þeir þurftu að vakna ekki seinna en 6.30 á morgnanna óháð því hvort það hafi verið sundlaugarpartý kvöldinu áður eða lokahófsball með Jónsa í svörtum fötum. Síðan höfðu þeir lítið fyrir stafni eftir einn leik að morgni.

Til að kóróna hlutina var leikjaskipulaginu breytt kl. 22.05 í gærkvöldi úr því að strákarnir ættu leik kl. 10 morguninn eftir í kl. 8 !!! Pinch og það út á Gróttu vellinum. Ætlast var til að þeir gengju niður í Laugardal (15-25 mín ganga) til að taka rútu kl. 7.20 út á gróttu. Fallist var á að sækja þá í skólann sem og lið Víkinga. Mætt var á rútu fyrir 20 manns svo bæði liðin komust ekki með í einni ferð. Mjög gáfulegt! Þetta olli töfum og mætti KA liðið ekki fyrir en kl. 8 á völlin í stað 7.30 sem er eðlilegur tími til að hægt sé að hita upp í 30 mín. Jægja ekki nóg með það heldur þurftu bæði liðin að bíða í 90 mín eftir að leik lauk eftir rútu til að ná í þá. Samt kom stór rúta með annað lið á svæðið en keyrði tóm í burtu Angry

Þetta er nú alveg með ólíkindum. Strákarnir komu upp í skóla kl. 11 og áttu þá að mæta á næsta leik kl. 11.30, sársvangir og eftir að pakka dótinu sínu saman fyrir heimferðina.

Þeir tóku þessu öllu með jafnaðargeði þar til í lokaleiknum eins og kemur fram í fyrri færslunni.

Við mæðginin skorum á stjórnendur Reycup að endurskoða skipulagið og kannski setja takmörk á fjölda þátttakenda þar sem ljóst virðist að hann hafi verið of mikill til að viðunandi sé.

Held að heillavænna sé að minnka áherslurnar á ytri flottheit og hafa grunnatriðin í lagi.


Gisti með heilu fótboltaliði!

Já það er reynsla út af fyrir sig að gista með 14 hraustum drengjum í skólastofu. Mig óraði ekki fyrir því þegar ég var ung (yngri Cool ) að ég ætti eftir að sofa með heilu fótboltaliði og það 2 nætur í röð!

Tók nefnilega að mér að vera fararstjóri fyrir 4 flokk drengja í KA sem lagði land undir fót og kepptu á Reycup mótinu í Reykjavík.

Þetta hefur verið mjög skemmtilegt í alla staði og gott að kynnast strákunum á svona mótum og einnig foreldrunum.

Drengirnir stóðu sig nokkuð vel og spiluðu betur eftir því sem leið á mótið þrátt fyrir lítinn svefn. Hinsvegar sagði þreytan til sín eftir síðasta leikinn sem tapaðist 2-1 eftir að þeir höfðu haft yfirhöndina allan leikinn 1-0 þar til 3 mín. voru eftir af leiknum. Markmaður KA hann Halldór (frábær markmaður) var búin að grípa boltann og kominn með hann í fangið krúpandi á hjánum þegar boltinn skoppaði upp úr fangi hans og inn í markið Frown  

Þetta stórefldi mótherjana sem sóttu af alvöru í lok leiksins eftir skot KA rétt fram hjá markinu þeirra sem var lokatilraun til að ná aftur yfirhöndinni í leiknum við ÍA. ÍA náði boltanum og skoraði annað markið og svo var leikurinn flautaður af. KA menn brugðust harkalega við og voru mjög sárir og reiðir vegna ósanngjarns taps en svona er þetta nú stundum og tilfinningarnar verða oft hömulausari þegar menn eru þreyttir. Þeir stóðu fast á því að dæma hefði átt seinna markið ógilt vegna rangstöðu.

 Því miður fara hlutirnir ekki alltaf eins og maður helst kýs.


Loksins staðhæfir trúverðugur maður um tilvist geimvera

Því skyldum við ætla að við homo sapiens séum einu geimverurnar í alheiminum!

Mér hefur alltaf fundist síðan ég var barn að það væru til verur sem væru mun þróaðri en við, hvort sem þær kysu að sína sig fyrir okkur eða ekki.

Ef ég væri geimvera giska ég á að upprunastjarnan væri Síríus!!! ha ha Wink


mbl.is „Það eru til geimverur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðtal við hnakkasmið um það hvernig hnakkar passa misjöfnum hestum

Bendi á þessa heimasíðu. Fagleg umfjöllun um gerð hnakka og hvað þarf að huga að til að vernda bak hestsins.

 

 http://www.hestakaup.com/content/view/59/97/


Svona þyrftum við öll að LIFA lífinu

Yndislegt viðtal og svei mér ef þetta er ekki akkúrat málið! Er ekki alltaf verið að benda okkur á það að lifa hvern dag eins og hann væri sá síðasti. Það virðist því miður þrautinni þyngra og oft virðist mér að fólk nái ekki þessari list fyrr en í óefni...

Að hungra í ruslfæði byrjar í móðurkviði

Las frétt á BBC news sem gengur út á það að börn mæðra sem nærast mikið á ruslfæði á meðgöngunni eru í meiri hættu á offitu vandamálum síðar á ævinni. Mér finnst ég nú hafa heyrt talað um þetta áður og að þetta sé ekkert nýtt, en allavega greip athygli...

Ferðin til Cambrigde og suður Englands

Komum til Standsted 28. maí sem var afmælisdagur Ragnhildar ömmu heitinnar. Ragnhildur sótti okkur. Massi bauð upp á rjúkandi sterkt og gott pasta sem strákunum líkaði vel en Koggu þótti of sterkt! Pabbi kom með í ferðina og er það sjötugsafmælisgjöfin...

Framhaldskönnun á uppáhaldsnáttúruperlum Íslands

Langaði að gera framhaldskönnun á því hvað lesendur telja vera það sem stendur upp úr í íslenskri náttúru og ferðamennsku . Helst langar mig að fá fram þær náttúruperlur sem flokkast ekki undir þessa hefðbundnu

Best geymdu leyndarmál í íslenskri náttúru og ferðamennsku

Ísland hefur upp á svo margt að bjóða sem stendur örðu svo miklu framar. Þarf oft ekki að sækja langt yfir skammt til að njóta fjölbreyttrar ferðamennsku. Langar að nefna þrennt sem mér finnst standa uppúr: Var að koma úr rafting með Ævintýraferðum (sjá...

Tímaleysi og aftur tímaleysi

Hef ekki gefið mér tíma til að skrifa meira um utanlandsferðir mínar né setja inn myndir frá þeim. Reyndar reyndi ég áðan en þá virkaði ekki tæknin svo ég gafst upp eða öllu heldur betri helmingurinn sem skilur ekkert í því hvað mitt svæði í tölvunni fer...

Sorgin

Skrif Steinu bloggvinkonu um sorgina fékk mig til að hugsa aðeins dýpra um stund. Okkur er öllum hollt að endurskoða verðmætamat okkar öðru hvoru og hugleiða um það sem er okkur dýrmætast í lífinu. Ég er einmitt svo þakklát fyrir að hafa átt yndislegar...

I Køben

Kaupmannahöfn tók vel á móti okkur með 26 gráðu hita og glampandi sól. Einnig máttu danirnir ekki sjá okkur draga upp kort án þess að bjóða okkur aðstoð og segja okkur til vegar. Kannski litum við út fyrir að vera alveg LOST! Vid erum búnar ad lenda í...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband