27.6.2008 | 03:32
Best geymdu leyndarmál í íslenskri náttúru og ferðamennsku
Ísland hefur upp á svo margt að bjóða sem stendur örðu svo miklu framar. Þarf oft ekki að sækja langt yfir skammt til að njóta fjölbreyttrar ferðamennsku. Langar að nefna þrennt sem mér finnst standa uppúr:
- Var að koma úr rafting með Ævintýraferðum (sjá www.rafting.is ) í Varmahlíð nú um helgina. Fórum 6 saman vinnufélagarnir og nutum þess í botn að fara um flúðirnar og einnig að njóta stórbrotinnar fegurðarinnar sem er í gili vestari jökulsárinnar. Þetta var mikil upplifun og ég skora á alla sem hafa líkamlega heilsu að láta þetta ekki framhjá sér fara. Færð mikið fyrir peninginn og hægt er að velja misstraumþungar ár. Get ekki beðið eftir að fara í þriggja daga ferð frá Laugafelli og enda í austari ánni síðasta daginn *
- Hjóla yfir Lágheiði að Ólafsfirði. Fór með sonum mínum tveim, vinkonu og dóttur hennar í fyrrasumar í hjólaferð. Toppurinn á ferðinni var þegar við runnum niður eftir Lágheiðinni langa langa leið á fullri ferð. Fengum heilmikið adrenalín um kroppinn og frelsistilfinningu Frábært að dvelja í sumarbústað á Ólafsfirði og láta líða úr þreyttum vöðvum í heita pottinum í náttúrufegurðinni þar, eftir slíka ferð.
- Tjalda í Leyningshólum Eyjafjarðarsveit. Þar er mikill og fjölbreyttur gróður og sérstakt landslag. Tjaldstæðið liggur ofan í "gjá" og allt skógi vaxið. Þar er ekki rennandi vatn né salerni fyrir utan einn gamlan kamar, þannig að þar er sko alvöru útilega án allra nútíma þæginda. Ekkert yndislegra en að hita marsmallows við varðeld á sumarkvöldum á svo yndislegum stað. Það líður ekki það sumar að við förum ekki með krakkana í a.m.k. eina tjaldútilegu þar.
* Verð að geta þess að leiðsögumaðurinn hjá Ævintýraferðum tók mig upp og benti hinum á að ég væri: "the best dressed lady" og átti við heppileg ullarnærföt sem voru líka í stíl við rúllukragabolinn!! Ekki á hverjum degi sem maður fær svona titil. Það var vinnufélögunum til ómældrar skemmtunar þegar ég var aftur tekin fyrir í björgunarsýnikennslu í öllum blautgallanum og með hjálminn og skipað niður á hnén! Leiðsögumaðurinn sagði að ef einhver dytti útbyrðis ætti að ná honum upp í bátinn með því að setja 2 fingur í sitthvort gatið á hjálminum og 2 fingur hinnar handar upp í nasir viðkomandi ... Síðan leiðrétti hann þetta og sýndi alvöru björgun og þeytti mér eins og tuskudúkku upp í gúmmíbátinn
Ég er sem betur fer ekki viðkvæm og hef mögulega svoldið gaman af athyglinni og alltaf til í glens
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.