1.9.2008 | 22:28
Yndislegt fólk í kring um mig
Það er sko í nógu að snúast þessa dagana. Búin að skila rannsóknaráætluninni sem tók örugglega þrefalt lengri tíma en hefði mátt áætla vegna tregðu heilasellanna í öllu stressinu.
Við bættist að flutningurinn fyrir Jónas með hestaflutningabílnum seinkaði fram yfir helgi. Nú voru góð ráð dýr því búið var að gera ráð fyrir klárnum í göngur í Blöndudal eða að Hveravöllum á sunnudegi. Ég bý hvorki svo vel að eiga hestakerru né bíl með dráttarkrók. Notaði mest allan föstudaginn í að hringja og athuga hvort einhver gæti ferjað Jónas vestur en engin var ferðin. Það kostar litlar 27.000 kr. að leiga jeppa með krók fyrir einn dag svo það var ekki í myndinni.
Nú varð að upphugsa hver gæti hugsanlega séð af bíl og kerru! Það varð úr að ég áræddi að hringja í fyrrverandi vinnuveitanda sem hafði einhverntímann boðið mér jeppann sinn ef ég þyrfti. Hann er einmitt sú týpa sem auðvelt er að spyrja um slíkt því hann er ekki hræddur við að segja bara nei ef svo ber undir. Alveg yndisleg manneskja og frábær yfirmaður. Hann lánaði jeppann eins og ekkert væri og hestakerruna fékk ég frá eiganda hesthússins sem Jónas var í í vetur. Allt að ganga upp.
Mjög kær vinkona mín sem var á næturvöktum um helgina eins og ég, bauðst samt til að koma með mér. Við keyrðum með hestinn vestur og gátum blaðrað saman alla leiðina og haft bara gaman af. Jeppin (Toyota Landcruser) og kerran virkuðu vel saman og þetta var ekkert mál.
Náðum svo rétt að renna til baka á Akureyri til að komast í vinnu kl. 23.00 eftir þvott á bíl og kerru.
Ég er afskaplega þakklát fyrir allt það góða fólk sem í kringum mig er og sérstaklega fyrir dygga og trúa vini mína sem hafa staðið þétt við bakið á mér. Veit að ég á eftir að sakna þeirra sárt þegar ég verð flutt suður.
Frétti í dag að Jónas stæði sig vel í göngunum og það væri almenn ánægja með hann. Hann er stór og öflugur klár, 1.53 cm á hæð á stöng! Hann fær að vera í sveitasælunni í vetur og kannski líka næsta sumar.
Skrifa næst þegar ég verð kominn suður í Mosfellsbæinn.
Athugasemdir
Elsku Solla. Mikid er gott ad heyra adeins frá thér, og yndislegt ad thú átt svona góda og trausta vini. Vildi óska ad ég væri nær, svo ég gæti rétt thér hjálparhønd. Hugsa allavega helling til thín. Vona ad allt gangi vel med flutningana. Kær kvedja, Solla
Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 2.9.2008 kl. 20:33
gaman að þú ert komin aftur. og til hamngju með að vera búinn með verkefnið.
kærleikur til þín frá lejrekotinu.
steinaSteinunn Helga Sigurðardóttir, 6.9.2008 kl. 16:49
seisei já, huggulegur hestur hann Jónas. Ef ég væri hestur, þá myndi ég vilja að ég og jónas værum vinir.
Daníel Þórhallsson (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.