20.1.2009 | 22:28
Tíðindadagur!
Það eru blendnar tilfinningar sem fara um mig á þessum stóra degi. Hjartað fullt af von og þakklæti yfir nýkjörnum forseta Barak Obama. Mér vöknaði um augum við að hlýða á stórkostlega ræðu hans og framkomu. Gat ekki annað en upplifað hana eins og hann hafi talað frá hjartanu og af einlægni. Ég vona að minnsta kosti að hann hafi meint allavega helminginn af því sem hann sagði og hans orð eiga flest mjög vel við um okkar land og okkar stjórnsýslu.
Það sem mér finnst sárast í dag við öll mótmælin og reiðina (sem ég tel réttmæta vel að merkja!) er að ég óttast að þau geti að vissu leiti tafið fyrir jákvæðum breytingum.
Mig langar að kynnast skoðunum bloggheims á kosingum eða því að sett verði á Landsstjórn.
Ég hef ekki mikið fylgst með pólitík í geng um tíðina, svona miðað við þá pólitískustu en ég set spurningamerki við kosningar af nokkrum ástæðum.
- Er ekki slæmt fyrir Íslensku þjóðina á þessum víðsjárverðu tímum að eyða dýrmætum tíma og fyrirhöfn í kosningar?
- Eru hinir flokkarnir endilega betri fulltrúar fyrir það gríðarlega verk sem við stöndum frammi fyrir?
- Gefur heiftin og glundroðinn sem virtist ríkja á Alþingi í dag góð fyrirheit um farsælt framhald?
- Hafa alþingismenn okkar almennt næga reynslu og þekkingu til að stýra okkur út úr þessum ógöngum?
Eins og sést á ofangreindu er ég full efasemda og hef orðið lítið trúnaðartraust til allra þeirra sem starfa á alþingi. Mér finnast hróp, puttabendingar, frammíköll og blótsyrði ekki sérlega traustvekjandi. Ef þeir sem gagnrýna núverandi ríkistjórn telja sig hæfari til starfans ættu þeir hinir sömu að sýna góða framkomu, kurteisi, viksu, rökfestu, yfirvegun og háttvísi sem er miklu áhrifameiri að mínu mati. Ég hef aldrei verið fylgjandi núverandi ríkisstjórn en samt dáðist ég að yfirvegun Geirs H. í þingsalnum í dag sem og á öðrum opinberum vettvangi. Mér fannst hann sýna mikinn sjálfsstyrk og manndóm, þó mér þyki að sama skapi miður að ekki sé hægt að hæla honum fyrir þær dyggðir þegar kemur að aðgerðum og markvissum áætlunum ríkisstjórnarinnar fyrir Íslensku þjóðina.
Talað hefur verið um Landsstjórn... ég þekki ekki nægilega til í þeim efnum en velti fyrir mér af hverju mótmælendur krefjast ekki landstjórnar! Væntanlega þarf kosningar til þess líka en ef ég skil rétt eru þá ekki kjörnir þeir einstaklingar sem hæfastir eru til starfans og þurfa ekki endilega að vera flokksbundnir? Það hlýtur því að vera af meiru að moða af hæfileikaríku og óeigingjörnu fólki sem í samvinnu við þá sem hafa reynslu af alþingingisstörfum gætu leitt okkur farsællar úr þessari kreppu eða allvega minnkað skaðann sem mest. Ég tel mikilvægt að allir sem einn taki höndum saman eins og Barak Obama fjallaði um í setningarræðu sinni. Sameinuð stöndum við betur að vígi. Stóra spurninginn er hinsvegar sú: Hvernig er besta og fjótlegasta leiðin að því? Svari þeir sem vita!!!
Varandi mótmælin í dag þá vil ég hrósa Íslenskum mótmælendum fyrir kappsemi og að gefast ekki upp. Loksins á nýju ári og nýafstöðnu ári hafa Íslendingar sýnt kjark og dug til að mótmæla almennilega og kröftuglega. Við höfum allt of oft mjálmað einhver mótmæli sem fljótt voru gleymd og grafin.
Þó vil ég nefna að mér finnst of hart vegið að lögreglunni. Mótmælin eiga ekki að snúast gegn henni sem hefur það vandasama hlutverk að verja lög og reglu. Mótmælin voru ekki áhrifameiri við það að komast upp að húsvegg alþingis og berja utan á glugga þess eða kasta grjóti eða öðru slíku í átt til lögreglumanna eða kasta í þá fjúkyrðum. Hver vildi vera í þeirra fótsporum???
Til að taka af allan vafa er ég ekki að réttlæta barsmíðar lögreglunnar eða úðun piðarúða beint í andlit fólks, ef rétt er með mál farið af hálfu mótmælenda. Mótmælendur bera líka ábyrgð á því að vera ekki með ónauðsynlegar niðurlægingar eða stympingar gagnvart lögreglunni. Það vantar mikið upp á það hérlendis að lögreglunni sé sýnd réttmæt virðing. Pössum okkur, því þeir sem mótmælendur eru að gagnrýna eru sekir fyrir virðingarleysi gagnvart þjóðinni og miður góða framkomu! Sýnum meiri manndóm og meiri visku en þeir og þá fyrst er hlustað af alvöru.
Sýnum að við séum vönd að virðingu okkar, séum samstíga og á sama tíma staðföst og gefumst ekki upp fyrr en "réttlæti" er náð, ekki "yfirlæti" með reiði og hroka í fararbroddi!
Mannfjöldi á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kosningabarátta í dag er mikið til unnin af PR fólki þannig að ég sé ekki að það sé vandamál.
Svo er auðvitað fullt af reysluboltum inni á þingi núna sem geta gengið í öll störf þannig að það skiptir ekki máli þótt stjórnin verði leyst upp og bráðabirgðastjórn skipuð fram að kosningum.
Soffía Valdimarsdóttir, 22.1.2009 kl. 13:22
Takk fyrir að koma fram með þína skoðun. Gott að heyra að þú berir traust til þingmannanna.
Kveðja, Sólveig K
Sólveig Klara Káradóttir, 23.1.2009 kl. 13:00
Það hefur oft verið talað um að "Alþingi endurspegli þjóðfélagið" og því miður held ég að mikið sé til í því. Ég er "dálítið mikið viss" um að á meðan "andlegur þroski" okkar verður á því stig sem hann er í dag, þá verða ekki stórar breytingar hjá "blessuðu mannfólkinu". Ég er líka "nokkuð viss" um að ég kem ekki til með að lifa þá tíma.
bestu kveðjur og farnist þér vel
Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 18:36
Takk fyrir athugasemdirnar Páll.
Ég hugsa að ég sjálf hafi verið heldur svartsýn þegar ég skrifaði færsluna. Þegar ég hugsa málið betur eru örugglega margir á Alþingi sem eru "dýpra þenkjandi" og aðhillast andlegan vöxt jafnt á við veraldleg gæði. Ég tel hinsvegar að pólitíska umhverfið sé siðspillandi að mörgu leiti og auðvelt fyrir fólk að týna sjálfu sér í því umhverfi, nema viðkomandi sé mjög sterkur einstaklingur og viti fyrir hvað hann stendur.
Mér finnst að það séu ýmis teikn á lofti um þessar mundir bæði hérlendis og erlendis um jákvæðar breytingar. Fólkið vill nýja hluti og aðrar áherslur.
Ég segi það enn og aftur að okkur er öllum svo mikilvægt að horfa á þau atriði sem endurspegla það góða og jákvæða og gefa þeim hlutum meira vægi. Með því móti sjáum við okkur sjálf og umheiminn í bjartara ljósi og sannara. Það er allavega mín skoðun. Tel það ekki blekkingu því það sem við sjáum er raunveruleikinn í það sinnið og því ekki að sjá þann raunveruleika sem er okkur meira að skapi. Hann er ekki síður réttur en sá raunveruleiki sem er grárri.
Bestur kveðjur og vonandi lifir þú til að sjá batnandi heim, ein pínulítið bjartsýnni
Sólveig Klara Káradóttir, 1.2.2009 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.