ÞAKKLÆTI

Að vera sannarlega þakklátur er góð leið til að líða vel og skapa sér betri tilveru. Þegar manneskja er sannarlega þakklát er ekkert rúm fyrir neikvæðar tilfinningar. Þakklæti er yndisleg tilfinning og hollt hverri manneskju að iðka það og gera að daglegri iðju í sínu lífi. Þegar við einblínum á allt það sem við erum þakklát fyrir erum við að horfa á allar þær allsnæktir sem í kringum okkur eru. En þegar við hugsum um allt sem okkur langar í eða vantar erum við að upplifa tilfinningu skorts.

Það segir einhversstaðar að allt sem við setjum athygli okkar á vaxi. Eins er það með þakklætið að þegar við þökkum fyrir eitthvað þá vex það. Allavega eykst sú tilfinning að við höfum nóg og það sé séð fyrir því að svo haldi áfram. => meiri vellíðan og öryggiskennd og gleði.

Mér fannst það virkilega góð ummæli hjá Páli Óskari á föstudagskvöldið þar sem hann deildi því með okkur hinum að hann notar þakklætið daglega. Hann byrjar á því á morgnanna þegar hann vaknar að hugsa um allt það sem hann er þakklátur fyrir. Á kvöldin þakkar hann fyrir það sem hefur orðið á vegi hans þann daginn. Hann sagði að það væri líka mikilvægt að þakka fyrir erfiðleikana því við þurfum þá til að vaxa og öðlast dýpri reynslu. 

Það er óteljandi margt sem hægt er að vera þakklátur fyrir. Hugsa að það sé auðveldara að sjá það núna þegar Ísland er nánast komið á hvolf og margt sem við töldum öruggt er það ekki lengur. Þá verða sjálfsögðu hlutirnir ekki eins sjálfsagðir lengur. Það er ekki endilega slæmt því það kennir okkur meira um þakklætið.  Vera þakklát fyrir að hafa hvort annað, bændurna á Íslandi, hafa húsaskjól, alla þessa þjónustu til að auðvelda okkur lífið o.s.frv. Það er hægt að halda endalaust áfram. Best er einmitt að halda áfram að telja upp allt sem þú ert þakklátur fyrir þangað til þú finnur þessa yndislegu tilfinningu þakklætis gegntaka þig og fylla þig af friði, hamingju og sátt.

 

Mæli með þessu og ætla að taka Pál Óskar mér til fyrirmyndar

og muna eftir þakklætinu kvölds og morgna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dísa Dóra

Já það er svo sannarlega rétt að það er mikilvægt að muna eftir að þakka fyrir allt það sem við höfum.  Palli var sko góður í þessu og ég mæli líka með að taka einn "Palla" á þetta

Hef stundum hugsað um smá sögu sem ég heyrði eitt sinn um þakklæti (eða kannski ekki beint sögu).  Ef þér finnst þú hafa lítið að þakka fyrir eða eiga lítið til að þakka fyrir þá ættir þú að hugsa um þetta:  Þú stendur í þeim sporum einn daginn að þú hefur einhverra hluta vegna tapað ÖLLU sem þú átt.  Hve þakklát/ur yrðir þú ekki ef þú fengir það svo allt til baka næsta dag??  Já við höfum sko öll margt til að vera þakklát fyrir

Dísa Dóra, 19.10.2008 kl. 20:25

2 Smámynd: Sólveig Klara Káradóttir

Þetta er góður punktur hjá þér Dóra. Það er mikið til í máltækinu: Engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Það er svo skrítið hvernig þetta virkar með þakklætið því það verður alltaf auðveldara og auðveldara að vera þakklátur og taka eftir jákvæðu hlutum tilverunnar eftir því sem það er gert oftar. Ein fyrrverandi samstarfskona mín notaði þetta markvisst eftir að hún missti manninn sinn. Hún fór í þakklætisgöngutúra sem voru þannig að hún hugsaði upp hluti/atriði sem hún var þakklát fyrir eins lengi og hún gat fundið eitthvað. Fyrst voru göngutúrarnir stuttir en lengdust og lengdust með tímanum þangað til henni fannst hún geta verið þakklát út í það endalausa nánast.

Ég er viss um að þetta hjálpar okkur að vera meira í núinu og hækkar vitundina ef ég má orða það svo. 

Ljós til þín Dísa Dóra og takk fyrir að vera til 

Sólveig Klara Káradóttir, 20.10.2008 kl. 20:55

3 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

yndisleg færsa og svo frá mínu hjarta. þakklæti og að sjá lausnir í stað erfiðleika. sjá það sem við upplifum sem erfitt, sem möguleika á að vaxa og verða betri manneskjur !

Kærleikur til þín frá Lejre

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 26.10.2008 kl. 15:02

4 Smámynd: Sólveig Klara Káradóttir

Takk fyrir kærleikskveðju  Steinunn

Takk fyrir gefandi bloggvináttu Dísa og Steinunn 

Allir: Takk fyrir að vera til! 

Sólveig Klara Káradóttir, 27.10.2008 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband