Cambridge

Nú erum við strákarnir mínir ásamt pabba að fara til Cambridge í fyrramálið. Við erum rosalega spennt eða allir fyrir utan Karl sem hefur lýst því yfir að hann verði ekki lengur spenntur fyrir stórum atburðum, frekar minni atburðum og gefur dæmi eins og ef það væri hamborgari í matinn. Við erum að hitta systur mína og fjölskyldu hennar en þau fluttu þangað s.l. haust og hún vinnur sem lektor í Cambrigde (hún er taugalífeðlisfræðingur). Förinni er síðan heitið í bústað á suður englandi á fimmtudaginn og komið við í skemmtigarði fyrir börnin. Á föstudaginn skoðum við Stonehenge, laugardaginn mögulega safarí dýragarð ásamt fleiru (Harry Potter kastalann) og á sunnudag keyrum við til baka og komum við í Glastonberry.

 

Stuttu eftir heimkomuna held ég aftur af stað og í þetta sinn til Köben með vinkonu minni. Frestuðum heimferð um 1 dag til að komast á tónleika með Kylie M. Tounge

 

Mikið fjör framundan. Wink


Bókin sem mig langar að þýða yfir á íslensku

 A child´s palette

Bókin a child´s palette er alveg yndisleg bók. Falleg og hjálpar lesandanum að skilja sjálfan sig betur. Gefnar eru aðgengilegar leiðir til að hjálpa börnunum okkar að meta verðleika sína og sérkenni. Við erum hvert og eitt eins og stjarna á himinum, engin eins en allar eru þær skínandi og fallegar.

 

Fyrir áhugasama bendi ég á síðu Ricie Hilder í tenglalistanum og um bókina í lista yfir hugur, líkami og sál   Kissing


Ethan fær mig alltaf til að hlægja !

 Okkur fullorðna fólkinu veitir ekki af því að hlægja meira. Tökum börnin okkur til fyrirmyndar!


Reiðskjótinn stakk af!

Er þetta ekki dæmigert ! Ég var að hæla hestinum mínum honum Jónasi í gær og svo stingur hann mig af í dag! Errm

Ég skrapp í reiðtúr með hundinn okkar Sisku í bandi en losaði hana þegar á leið og leyfði henni að hlaupa lausri með. Á leiðinni komum við inn í fallegan skóg og sáum læk meðfram reiðstígnum. Ákvað að á þar og leyfa Jónasi að gæða sér á grængresinu sem gægðist upp í gegn um sinuna. Við vorum þarna í mestu makindum, Jónas að bíta gras, Siska að eltast við rjúpu og ég lá á lækjarbakkanum í leiðslu yfir fegurðinni, kyrrðinni, gjálfrinu í læknum og naut þess í botn að vera þarna með hestinum og hundinum.

Nokkru síðar rauf hófadynur kyrrðina og fjöldi hesta í rekstri þaut hjá. Skyndilega var eins og neisti kviknaði í Jónasi og hann þaut af stað og slóst í för með rekstrinum.  Þá var ekkert annað að gera en spretta á fætur og hlaupa á eftir stóðinu. Náði ég tali af hestamönnunum sem ráku lestina og gat látið þá vita um laumufarþegann! Ég þurfti að skokka nánast alla leið að hesthúsahverfinu eða að réttinni þar sem reksturinn stoppaði. Fékk Jónas aftur í hendurnar en hann var nú ekki ánægðari en svo að hann prjónaði með mig þegar ég lét það ekki eftir honum að hlaupa í annað sinn á eftir stóðinu.

Við komumst heilu og höldnu til baka og var ég eiginlega nokkuð ánægð að uppgötva að það væri nú svoldið líf í kalli.


Merkilegt fyrirbæri

Evrovision er merkilegt fyrirbæri. Það er alveg ótrúlega leiðigjarnt að upplifa hvað stigagjöfin er oft á tíðum fyrirsjáanleg. Annars var keppnin mjög jöfn núna og mér fannst mörg góð lög. Varð reyndar fyrir vonbrigðum með franska lagið þar sem flutningurinn var ekki að skila sér á stóra sviðinu þó að atriðið væri flott. 

 

Enn mikið rosalega stóðu þau Regína Ósk og Friðrik Ómar sig vel, þau geisluðu jafnvel enn meira nú en í undanúrslitunum. Það er ekki hægt að finna neitt að frammistöðunni, mikið kunnáttu fólk og ná að njóta sín í tætlur og áhorfendur hrífast með ( allavega þeir íslensku og dönsku! )  Grin

Fáklæddur keppandi í sveiflu.

 

Setti með mynd af Úkranísku söngkonunni, svona fyrir eiginmannin en hann kaus lagið hennar. Ég kaus aftur á móti Tyrki en Dani í undanúrslitunum. Langaði líka að kjósa Finnana. Fannst Sænska lagið ekkert spes fyrst en sættist við það í aðalkeppninni, líklega eru það fordómar gagnvart söngkonunni sem áttu hlut að máli. Fannst það ansi gott hjá eiginmanninum að líkja henni við geimveru þar sem hún virtist svo strekkt í framan, sérstaklega kring um augum og upp á ennið! Þá er sú Úkraníska mikið flottari og er ég alveg sátt við mat eiginmannsins þar. FootinMouth


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörg járn í eldinum

Nú er átakinu hjólað í vinnuna lokið…  og ég sem var rétt að komast í form!

  • Afrekaði að fara alla leið í Kritstnes og upp brekkuna í morgunn, í fyrsta sinn!  Skjólstæðingar í verkjahópnum gerðu grín að mér í fyrradag fyrir að hafa skilið hjólið eftir neðst í brekkunni og húkkað far með starfsmannarútunni restina. Ég lít nú svo á að það sé góð viðleitni hjá mér að hjóla að minnsta kosti eitthvað daglega. Ég fer að lágmarki 6 km fram og til baka og nýti mér starfsmannarútuna óspart. Í dag hjólaði ég hinsvegar alla 13 km í vinnuna og til baka aftur. Um kvöldið hjólaði ég að Skautahöllinni á Akureyri og festi hjólið þar við staur og rútan náði í mig þangað og keyrði mig á næturvaktina. Snilld! … ekki satt   Grin   

  • Fyrir utan að stunda hjólreiðar, stunda ég líka útreiðar af kappi á honum Jónasi mínum! Reyni að fara á hestbak að minnsta kosti annan hvern dag og helst oftar. Hann Jónas er búin að vera alveg yndislegur og duglegur að tileinka sér það sem ég er  að reyna að kenna honum.  Hann hefur ekkert á móti því að Siska hlaupi með í taumi við hlið hans. Okkur er óspart hrósað af öðrum hestamönnum fyrir uppátækið því lausaganga hunda er bönnuð á hestasvæðinu en fáir virðast hirða um það.   

  • Nafn hestsins veldur þó stundum misskilningi og sérstaklega þar sem margir Jónasar virðast vera í hestabransanum á Akureyri. Það er einn með mér í hesthúsinu þ.e. fyrir utan hestinn minn. Síðan eru tveir járningarmenn með sama nafni og annar járnaði fyrir mig.  Einnig hafa fleiri Jónasar komið við í hesthúsinu.  Fyrir ári síðan þekkti ég engann hestamann með þessu nafni en eftir að ég keypti hestinn síðastliðið vor er eins og þeir spretti upp eins og gorkúlur! 

  • Mestalla næturvaktina er ég búin að vafra um netið og skoða forvitnilega staði til að kíkja á í væntanlegum utanlandsferðum.  Eftir helgi fer ég með sonum mínum Kára og Karli til Cambridge í Englandi að hitta systur mína sem er prófessor þar í taugalífeðlisfræði. Við ætlum að keyra um og skoða m.a. Stonehedge, fara í tækjagarð, líta á Harrý Potter kastalann og kannski fara til Glastonburry og margt fleira. Fáum okkur bústað og verðum þar með börnin og bjóðum pabba/afa að koma með sem hluta af 70 ára afmælisgjöf.  Síðan er ég að fara til Kaupmannahafnar með vinkonu minni 3 dögum eftir heimkomuna frá Englandi. Verst að við rétt missum af tónleikum með Kylie M. 

  • Er það ekki dæmigert að láta allan þennan undirbúning og ókláraðar skyldur / verkefni stressa sig upp.  Sé fram á að koma ekki gulrótarfræunum niður eða vera búin að huga almennilega að garðinum áður en ég fer.  Síðan situr tiltektin á heimilinu nánast alltaf á hakanum.   Þá er mál til komið að ég tileinki mér eigin ráð og forgangsraði og geri einfaldlega mitt besta og hafi gaman af því sem ég tek mér fyrir hendur og sé svona hæfilega kærulaus slúbert!   Wink

                       Live, laugh and love 

 


Íslensku gyðjurnar úr goðafræðinni

Var að stynga upp á nafni fyrir væntanlega dóttur vinkonu minnar og fór að skoða lýsingu á gyðjunum úr goðafræðinni eins og þær koma fram í bók með íslensku rúnasteinunum sem Reynir Katrínar hannaði úr djúpalónsperlum. Langar að nota þennan útdrátt til gamans fyrir fleiri Whistling

  • EIR gyðja lækninga, heilunar, hjálpar, umhyggju, velferðar, lífsorku, líkama, lífsnauðsynja, endurvakningar
    • Eir bendir þér á að anda inn lífsorkunni og fylla líkamann af krafti og taka á móti flæði lífsins, efnislega, huglega og sálarlega. Hlusta á líkamann og veita honum það sem hann þarf sem og að tala við líkamann og hlusta á það sem hann segir þér til að þú getir veitt honum það sem hann þarfnast. Gefir þú líkamanum góðan tíma mun hann gefa þér góða líðan og gott líf. Stundum er sagt að við séum það sem við borðum, en hafðu í huga að þú ert líka það sem þú hugsar, segir og einnig það sem þú skynjar. Eir bendir þér á að hafa þessa þætti í jafnvægi og virkja hvern þátt og tengja saman.  InLove
  • FREYJA gyðja ástarinnar og frjósemi, ásta, yndisleika, losta, hvata, fæðingar, gersema, auðæfa og norðurljósa:
    • Freyja minnir þig á yndislegustu gjöfina sem þú getur deilt með annarri manneskju: að gefa, þiggja og njóta ástar. Ástin er fögur og tignarleg. Gefðu þér tíma til að sinna þeim er þú elskar og láta sinna þér. Freyja stendur fyrir jafnræði og að við séum öll jafn mikils virði. Þó við fæðumst í þennan heim með mismunandi möguleika og mismunandi eiginleika þá höfum við samt tækifæri til þess að skapa og upplifa það sem okkur langar til og við þráum. Öll sköpun þarfnast frjósemi og því skaltu opna fyrir gyðjuna og láttu frjósemina streyma um þig allan svo að sköpunin verði eins fjölbreytt, stórfengleg og gefandi eins og fæðing lífs. Fæðingin skapar nýja stefnu og breytinga sem færir þig nær því sem þú vilt upplifa. Freyja bendir þér á að það er komið að uppskeru. Þú munt fá laun fyrir þá skapandi vinnu sem þú hefur verið að fást við. Heart
  • FRIGG verndargyðja fjölskyldunnar, móðir goðanna, gyðja kærleikans, frændsemi, hjónabandsástar, þess að elska, einkamála, samskipta, skilnings, samlyndis:
    • Frigg bendir þér á að breiða út faðm þinn í kærleika til allra. Vertu hóflátur og sýndu hverjum og einum kurteisi. Hlutverk þitt er að hjálpa til við að finna lausn vandans þ.e.a.s. koma því þannig fyrir að lausnin hitti vandamál sitt. Rúnin segir þér líka að hafa afskipti af þar sem þú verður var við að fólk eigi í örðugleikum með samskipti. Oftast tengjast málin hjónabandi, fjölskyldu eða einhverjum þér skyldum. Þú ert bundin blóðböndum við forfeður þína og erfir hluti, eiginleika og annað. Fjölskyldan og ætt þín er grunnur þinn. Þú þarft að meðtaka þennan grunn, læra af honum, sætta þig við hann og viðurkenna hann fyrir sjálfum þér. Það veitir þér frelsi. Út frá því magnar þú upp eiginleikana sem þú hefur raðað saman fyrir þig. Hlutverk þitt er að hjálpa fólki eða fá það til að leita sér hjálpar. Hversu lítilvægt sem það er þá hafa allar okkar athafnir tilgang. Þú ert móðir allra, allir eru börin þín og þú ert barn allra. Halo
  • GULLVEIG gyðja seiðs og galdra, fjölkynngi, ágirndar, sundrungar, gullkrafts, endurfæðingar, heiðurs, völvanna:
    • Lífið er oft eins og sjónhverfing. Flestir vita hvað þeir vilja gera í lífinu eða við sitt líf. En er það öruglega það sem þú ert að gera núna? Staldraðu við, horfðu á sjálfan þig og kannski úr dálítilli fjarlægð því fjarlægðin skapar betri yfirsýn og hlutlausari skoðun. Að vilja vera eins og einhver annar er ekki sjálfstæð hugsun eða æskileg framtíðarmynd. Það er aðeins tálsýn vegna ímyndar sem þú sérð í annarri persónu. Rúnin segir þér að vera ekki afbrýðisamur né ágirnast það sem aðrir eiga heldur frekar gleðjast með þeim. Aðeins í hjarta þínu og sál liggja óskir þínar. Gullveig segir þér líka að skoða galdrana og lesa táknin go rúnirnar. Læra að skoða það sem þér er sýnt og að æfa þig í að lesa úr og skilja þau hugform sem þú færð þér til hjálpar og leiðbeiningar. Gullveig bendir þér á að allir geta þróað með sér þá hæfileika að sjá og miðla. Einnig hjálpar hún þér við að skilja á milli þess sem er á lægri tíðni eða á hærri tíðni. Notaðu tíma þinn. Wizard
  • HEL gyðja sálna og undirheima, hugarorku, ósýnileikans, örlaga, sálartenginga, sálnabrúarinnar:
    • Við erum öll hér til að læra. Við erum tilfinningaverur og fáum sannarlega að upplifa það. Við erum send af stað tengd ákveðnum örlögum og hlutverkið er að leysa eða fara í gegnum þau. Það eina sem gleymdist var að láta okkur vita hver þau væru. Rúnin minnir þig á tenginguna við sálina því með henni nærðu að opna og kíkja inn í tilgang lífsins. Mundu að þú ert ljósvera í efni og að þú hefur aðgang að öllum öðrum víddum. Rúnin minnir þig á að nota þann mátt sem hugurinn býr yfir í þjónustu við allt og alla. Breytingar skapast eingöngu með breyttu hugarfari og því að þú nýtir þér þessa hæfileika. Woundering
  • IÐUNN gyðja endurnýjunar, yngingar, hreinsunar, látleysis, breytinga, eftirvæntingar og barna:
    • Iðunn bendir þér á að halda þér ungum. Mundu hvernig það var að vera barn, gleðina sem fólgin er í því að fá gjöf, eftirvæntingin og tilhlökkunin þegar eitthvað er framundan. Spennandi fólk sem þú hittir og allt það sem þú getur lært af öðrum og endurnýjað hugmyndir þínar. Rúnin minnir þig líka á að þú þarft reglulega að endurskoða sjálfan þig. Taka inn nýjar hugmyndir sem þú færð og losa þig við þær gömlu sem þú þarft ekki lengur á að halda. Flest erum við með ákveðnar lífsskoðanir sem við höfum haft í mörg ár og það getur verið snúið að breyta þeim eftir margra ára samvinnu. Láttu það eftir þér, því engin ein lífsskoðun er rétttari en önnur. Það er hollt að breyta þeim öðru hvoru.  Gerðu nýja hluti og vertu opin. Gerðu helst eitthvað sem þú hefur aldrei gert áður og helst þá hluti sem þú ert hræddur við að gera. Farmkvæmdu stóra hluti sem þig hefur lengi langað að gera, þannig endurheimtir þú þá gleði og endurnýjun sem þú þarft inn í líf þitt nú. Farðu aðrar leiðir, breyttu til í kringum þig. Farðu inn á staði sem þú hefur aldrei komið á. Vertu barnið sem er ávallt síungt og forvitið. Hver dagur er nýr. Leiktu þér - til þess er lífið. Tounge
  • RÁN gyðja sjávar, undirdjúpanna, tenginga, minninga, endurskoðunar, duldra hvata:
    • Rán bendir þér á tengingar sem þú hefur við fólk og þær teningar sem þú ert að skapa. Þetta kort tengist vinnu, vinum eða framkvæmdum og hjálpar þér til að sjá hverja þú þarft að hafa samband við og hvernig er best að virkja það. Það er sama hvar í heiminum það er því netið er það stórt að hægt er að hafa samband til allra staða. Rán tengir þig hafinu frá botni og alla leið upp á topp öldunnar. Hafið geymir tilfinningar þínar og upplifanir. Eins og glitrandi svif sem bylgjast rólega um hafið og geymir minningar þínar. Þessar lýsandi minningar tengir þú í innra netið þitt. Sumar eru fastar í möskva og þrengir að þeim. Til að losa um þær færir þú þær upp eftir þráðum netsins og kemur með þær upp á öldurnar. Þar skolar þú þær og athugar hvað þær segja þér. Síðan setur þú þær á kortið þitt og út frá kortinu sérðu lausnina. Hvort sem þú tengir við sjálfan þig eða aðra mannesku þarftu að fara í gegnum minninguna, upplifa hvað hún segir þér og hverning þú getur notað hana. Síðan þarftu að viðurkenna og sætta við hana, sjá tilgang hennar og notagildi. Þetta er þín minning og allar tilfinningar og minningar eru þér mikils viðri. Allar þessar tilfinningar gera þig ríkari. Skilningur, þroski og lífsorka aukast þeim mun meira sem þú sættist við haf minninga þinna. Cool

 


Yfirbót

Það má sjá það á síðustu skilaboðum að ég hef ekki verið að standa mig í stykkinu í bogginu og valdið bloggvinum mínum vonbrigðum. Ég er nú einu sinni þannig gerð að ég þarf mikið frelsi sem birtist í því að ég læt gsm símann ekki stjórna mér ásamt fleiru. Þá á ég við að ég sé stundum ekki sms skilaboð fyrr en eftir 1-2 daga og hvernig á ég þá að geta verið bloggari með einhverri festu?


Þessa dagana sting ég öll vandamál af með því að skreppa á hestbak á hann Jónas minn! Þá hef ég góða afsökun fyrir því að taka ekki eftir því að íbúðin þarfnast þrifnaðar og tiltektar!!!

Hestamennska er eitthvað það besta geðlyf sem til er. Ég allavega stend mig að því að vera algjörlega í núinu meðan ég brasa í hestunum og gleymi mér alveg og kem svo heim eins og nýsleginn túskildingur. Virkilega góð slökun og endurhleðsla á batteríin.

 
 


Nýtt upphaf

Ég er alltaf að lesa sömu ráðleggingarnar þessa dagana á mismunandi stöðum. Það rann upp fyrir mér ljós nú í kvöld þegar ég fór alveg óafvitandi og í mesta sakleysi að skrá mína eigin bloggsíðu. Skil ekkert í því hvernig standi á því þar sem ég var eiginlega alveg búin að sverja þess eið að gera það aldrei!!  En þá áttaði ég mig á því að skilaboðin sem hafa borist mér frá mörgum áttum, hafa líklega haft einhver áhrif á "undirmeðvitundina" eða allavega áhrif á mig hvernig svo sem hægt er að skýra það frekar. Þessi skilaboð eru um hversu mikilvægt það er að ögra sjálfum sér, helst daglega, með því að takast á við nýja hluti ... da daa raaa og bingó !  Hér er kominn á sjónarsviðið bloggsíða sem ég taldi alveg fráleitt að yrði nokkurn tímann til og það á mínu nafni.

 Svona er lífið skemmtilegt og sífellt að koma manni á óvart.

Hinsvegar er nú önnur möguleg skýring á þessu athæfi og er hún heldur sennilegri svo ég sé nú hreinskilin.  Ég settist fyrir framan tölvuna í kvöld til að skoða námsefni dagsins í megindlegum rannsóknaraðferðum þar sem ég áttaði mig á því í dag að ég hafði steingleymt að mæta í skólann og þarf að undirbúa mig fyrir morgundaginn til að vera nú ekki eins og kjáni á morgunn í tölvutímunum! En þar sem ég er ekkert fyrir það að gera þá hluti fyrst sem maður á nú vanalega að hafa í forgang að þá varð ég að finna mér eitthvað annað til að taka athyglina frá náminu og þessi blogg síða dugði bara ágætlega til þess. Er ég nú bara nokkuð stolt af þessu og tel að sumardagurinn fyrsti sé með heppilegri dögum til að byrja á einhverju nýju í sínu lífi - þetta verður vonandi fróðlegt ferðalag


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband